Frétt

21. 10 2010

Vika opins aðgangs 18.-24. október

Um langt skeið hefur vísindafólk birt niðurstöður rannsókna sinna í tímaritum án þess að útgefendur þeirra greiði fyrir þá birtingu. Um leið þarf þetta sama fólk að greiða fyrir aðgang að ritunum, þar sem upphaf allra rannsókna er að þekkja það sem gert hefur verið á því sviði áður.

Þær áskriftir eru dýrar og háskólar, heilbrigðisstofnanir og rannsóknastofnanir leita leiða til að komast út úr þessu kostnaðarsama umhverfi. Sú leið sem liggur beinast við er að birta vísindagreinar í opnum aðgangi.

Þessa dagana er vika opins aðgangs um allan heim, 18. - 24. október. Henni er ætlað að vekja athygli á málefninu, en að sjálfsögðu þarf að hlúa að því allt árið um kring.

Opinn aðgangur er ekki ókeypis aðgangur nema fyrir lesanda, því að stofnanir þurfa að leggja til kostnað við útgáfu, yfirlestur og ritrýningu, þó að greinar séu gefnar út rafrænt.

Nánari upplýsingar á vef um opinn aðgang.

---

Höfundar hafa alltaf rétt á að birta greinar sínar á vef stofnunar eða eigin vef, í þeirri mynd sem þau skiluðu greininni inn til útgefanda.

Þannig greinar eru birtar í Hirslunni, opnu varðveislusafni Landspítala, og eru þar með í opnum aðgangi um allan heim. Þær finnast í leitarvélum eins og Google Scholar og SciVerse. Þetta eykur sýnileika greina og er rakin leið fyrir vísindafólk að koma efni sínu á framfæri.

Til baka
Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania